Ársskýrsla Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 lítur nú dagsins ljós og í fyrsta sinn á veftæku formi. Við höfum lagt áherslu á að upplýsingar séu aðgengilegar fyrir kjörna fulltrúa og bæjarbúa og vel settar fram þannig að það sé auðvelt að glöggva sig á helstu lykiltölum. Ársskýrslan er lögð fram samhliða síðari umræðu um ársreikning Mosfellsbæjar.
Afkoma Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 var mjög góð en rekstrarniðurstaða ársins er 877 milljónir króna úr A og B hluta. Þar munar miklu um sölu byggingarréttar sem nam 750 mkr.
Árið var metár í fjárfestingum en alls var fjárfest fyrir um 3,7 milljarða. Stærsta einstaka fjárfestingin var í Helgafellsskóla 892 mkr en aðrar stórar fjárfestingar voru innrétting íþróttasalar í Helgafellsskóla, endurbætur á eldhúsinu í Reykjakoti, endurnýjun lóða við Varmár- og Kvíslarskóla og endurnýjun Varmárvallar. Gatnagerð var lokið í 5. áfanga í Helgafellshverfi og gerð leikvallar í 4. áfanga sem fyrirtækið Bakki annaðist. Þá hófst gatnagerð við athafnasvæði Reita í Korputúni.
Skipulagsmálin voru fyrirferðamikil á árinu 2024 en alls var unnið að deiliskipulagi fyrir 1.750 nýjar íbúðir í sveitafélaginu.
Á árinu voru seldar 20 lóðir fyrir rað- og parhús og 14 lóðir fyrir einbýlishús. Þá voru seldar 16 lóðir við Langatanga og 2 lóðir við Fossatungu.
Þegar horft er til baka á árið 2024 þá má segja að árið einkennist líka af fjölmörgum skemmtilegum og gefandi verkefnum sem er ætlað að auðga mannlífið í Mosfellsbæ og efla lýðheilsu og útivist.
Á árinu gerðum við til dæmis samning við Sporið um lagningu gönguskíðabrauta við Blikastaði og á Hafravatni. Þetta vakti mikla lukku og í kjölfarið hefur Reykjavíkurborg gert samskonar samning sem eykur fjölbreytnina í gönguskíðaleiðum á höfuðborgarsvæðinu. Annað gleðilegt verkefni sem var unnið með sömu aðilum var lagning fjallahjólabrautar í Ævintýragarðinum. Hjólabrautin sem er um eins kílómetra löng varð mjög vinsæl hjá unga fólkinu og er skemmtileg viðbót við útivistarmöguleika í bænum. Þá var frísbígolfvöllurinn færður til og stækkaður.
Menningin blómstraði sem aldrei fyrr á árinu 2024 og þar lék Hlégarður stórt hlutverk en í húsinu voru haldnir um 260 viðburðir og fundir. Barnadjasshátíðin í Mosfellsbæ var haldin í annað sinn vorið 2024 í Hlégarði og Skólahljómsveit Mosfellsbæjar hélt upp á 60 ára afmæli sitt með flottum tónleikum.
Einn af eftirminnilegustu viðburðum ársins að mínu mati var útnefning heiðursborgara Mosfellsbæjar þar sem Birgir D. Sveinsson fyrrum skólastjóri Varmárskóla og stjórnandi skólahljómsveitarinnar í 40 ár var útnefndur við hátíðlega athöfn við Varmárlaug á þjóðhátíðardaginn. Skólahljómsveitin lék einmitt í fyrsta sinn opinberlega við vígslu laugarinnar þann 17. júní 1964.
Annað sögufrægt hús í bænum, Brúarland, fékk einnig nýtt hlutverk á árinu, þegar félagsstarf aldraðra og FAMOS fluttu inn með sína starfsemi, en 1. og 2 . hæð hússins hafa verið endurgerðar. Félagsstarfið nýtur sín mjög vel í fallega uppgerðu húsinu og það ríkir almenn ánægja á meðal eldri borgara með þessa ráðstöfun.
Nýr búsetukjarni fyrir fimm fatlaða einstaklinga var tekinn í notkun á Úugötu en það var Þroskahjálp sem byggði húsið fyrir Mosfellsbæ.
Starfsfólkið okkar í leik-og grunnskólum, félagsmiðstöðvum og velferðarþjónustu vinna stóra og smáa sigra á hverjum degi í kennslu og umönnun en við vorum gríðarlega stolt þegar Helgafellsskóli fékk íslensku menntaverðlaunin fyrir verkefnið Snjallræði en þær Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri og Málfríður Bjarnadóttir helsti hvatamaður verkefnisins tóku á móti verðlaununum. Þá var Dóra Wild á Hlaðhömrum einnig tilnefnd sem kennari ársins fyrir framúrskarandi starf.
Tilkynningum til barnaverndar í Mosfellsbæ fjölgaði um tæplega 50% á árinu og enduðu í 763 tilkynningum þar sem 294 börn eiga í hlut.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar brást við auknum tilkynningum og samþykkti 27 aðgerðir í verkefni sem við höfum nefnt Börnin okkar og leggur 100 milljónir aukalega í forvarnir á árinu 2025.
Í umhverfismálum náðist mikill árangur í flokkun heimilissorps en Mosfellingar flokka mest sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2024 var blandaður úrgangur á hvern íbúa í Mosfellsbæ 72,8 kg. Seltjarnarnes kom næst með 80 kg. á hvern íbúa, svo Hafnarfjörður með 80,2 kg., Reykjavík með 81,7 kg., Garðabær með 83 kg. og að lokum Kópavogur með 84,6 kg. á hvern íbúa. Þá dróst urðun í Álfsnesi saman um 90%, úr tæplega 53.700 tonnum í um 5.070 tonn. Þessi mikli samdráttur náðist með því að flytja blandaðan úrgang úr landi til orkuvinnslu í Svíþjóð og stöðva alfarið urðun á lífrænum og lyktarsterkum úrgangi.
Bæjarstjórn samþykkti á árinu að ganga til samninga við Malbikstöðina og Íslenska gámafélagið um snjómokstur og viðmiðum var breytt í nýjum samningum með það að markmiði að bæta þjónustuna. Þá var ákveðið að leggja aukna áherslu á gönguleiðir sem bærinn sjálfur annast og bætt við nýju snjómoksturstæki fyrir þjónustustöðina.
Það er bjart framundan í Mosfellsbæ og mikil uppbygging í gangi. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsmönnum bæjarins fyrir góða þjónustu og rekstur bæjarfélagsins og kjörnum fulltrúum fyrir að standa þétt við bakið á okkur, með það að markmiði að bæjarfélagið blómstri með velferð og lífsgæði íbúanna í forgrunni.
Skrifstofur Þverholti 2 270 Mosfellsbær kt. 470269-5969 rnr. 549-26-2200
Opið virka daga mán. – fim. 8:00-16:00 fös. 8:00-13:00